Skip to main content
AldanStéttarfélag.isVMF

Þegar framlínan lendir aftast í röðinni

By August 6, 2021No Comments

Föstudagspistill forseta ASÍ

Um það leyti sem landinn elti sólina norður og austur, naut frelsis og takmarkaminni samveru, þá varð enn á ný rof á milli kjara æðstu ráðamanna og almennings. Í janúar síðastliðnum hækkuðu taxtalaun um 24 þúsund krónur en almenn hækkun launa var 15.750 krónur. Þau sem muna kjarabaráttuna í upphafi árs 2019 vita vel hvað þurfti mikið átak til að ná slíkum árvissum hækkunum í þriggja og hálfs árs samningi. Grunnhugmyndin var að tryggja hækkun lægstu launa umfram almenna launahækkun. Þingmenn undirgangast ekki þessa hugmyndafræði heldur taka hækkunum miðað við launavísitölu opinberra starfsmanna. Það skilaði sér í 75 þúsund króna hækkun á einu bretti núna í sumar, örfáum árum eftir að laun þingmanna hækkuðu um ein 40%. Enn á ný eru æðstu hópar samfélagsins undanskildir frá því sem um almenning gildir. Það er vert að muna nú í aðdraganda kosninga þar sem áróður um stöðugleika, styrka efnahagsstjórn, réttlæti, samráð og sátt mun dynja á hlustum landans. Samfélagsleg sátt mun aldrei nást ef stórir hópar eru skildir eftir í lífsgæðum og aðrir hópar telja sig undanskilda almennum takti.

Hætt er við að slík grundvallarmál falli í skuggann af því sem yfirskyggir allt um þessar mundir; baráttan við veiruna. Mikil pólitísk togstreita ríkir um aðgerðir og óljóst hvert stjórnvöld ætla sér. Á meðan fjölgar smitum óhugnanlega en sem betur fer virðast færri veikjast alvarlega þótt aldrei megi gera lítið úr þessari skæðu veiru. Fólk í framlínunni; sem vinnur í verslunum og þjónustu, við umönnun, kennslu og í heilbrigðiskerfinu getur ekki búið við annan eins vetur og var í fyrra. Þolmörkunum er náð en óvissa um framhaldið er verst. Álagið og afkomuóttinn sem fylgt hefur þessum vágesti er lamandi og því brýnasta málið að tryggja fulla mönnun og hvíld vinnandi fólks og aðlaga atvinnuleysistryggingakerfið að sveiflóttum vinnumarkaði í skugga veirunnar.

Að því sögðu þá skulum við muna að fagna fjölbreytileikanum í öllum regnbogans litum og vita að barátta fyrir mannréttindum getur borið árangur.

Gleðilega hinsegindaga!

Drífa

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com