Pistill forseta ASÍ
„BPO Innheimta ehf. er nýtt og framsækið innheimtufyrirtæki á sviði innheimtu á Íslandi,“ eða þannig kynnir fyrirtækið sig á heimasíðu sinni.Framsæknin varð ljós í vikunni þegar fyrirtækið keypti kröfusöfn smálánafyrirtækja og hóf að senda út greiðsluseðla í heimabanka fólks með eindaga sama dag og kröfurnar voru sendar út.
„BPO Innheimta ehf. er nýtt og framsækið innheimtufyrirtæki á sviði innheimtu á Íslandi,“ eða þannig kynnir fyrirtækið sig á heimasíðu sinni. Framsæknin varð ljós í vikunni þegar fyrirtækið keypti kröfusöfn smálánafyrirtækja og hóf að senda út greiðsluseðla í heimabanka fólks með eindaga sama dag og kröfurnar voru sendar út. Neytendasamtökin hafa bent á að dæmi séu um að kröfur hafi hækkað mikið, jafnvel tvöfaldast og að þvert á gefin fyrirheit sé ekki eingöngu send krafa fyrir höfuðstóli lána, heldur einnig lántökukostnaði, innheimtukostnaði og vöxtum. Einhverjar kröfur eru þegar greiddar og ganga í endurnýjun lífdaga. Í því sambandi er rétt að minna á að þeir okurvextir sem smálánafyrirtæki lögðu á lán til einstaklinga reyndust ólögmætir. Það er löngu kominn tími til að okurlánarar hætti að níðast á viðkvæmu og fátæku fólki og skýr krafa að fjármálaeftirlitið fari að einbeita sér að glæpsamlegum athöfnum þessara fyrirtækja. ASÍ styður Neytendasamtökin í sinni baráttu.
ASÍ skilaði umsögn sinni við fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 í vikunni. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir 5% atvinnuleysi við lok tímabilsins, sem er með öllu óásættanleg framtíðarsýn. Markmið ríkisfjármála á að vera að dempa höggið af kreppunni með því að tryggja afkomu fólks og fulla atvinnu til framtíðar. Við súpum enn seyðið af því langtímaatvinnuleysi sem myndaðist í kringum hrun en eftir því sem atvinnuleysi dregst á langinn, þeim mun erfiðara verður að takast á við það.
Stjórnvöld eru einnig með áform um „afkomubætandi ráðstafanir“ en orðið afkomubætandi er nýyrði sem virðist hafa verið fundið upp af núverandi fjármálaráðherra. Það kemur fyrst fyrir í þingtíðindum á þarsíðasta þingi en þá aðeins í mýflugumynd. Orðið finnst heldur ekki á timarit.is en kemur hins vegar fyrir 114 sinnum í framlagðri fjármálaáætlun. Í stuttu máli er þarna verið að leggja til annað hvort skattahækkanir eða niðurskurð.
Ég árétta þá afstöðu ASÍ að niðurgreiðsla skulda á að mæta afgangi. Afkoma fólks og samfélagslegir hagsmunir eiga að vera í fyrsta sæti. Niðurskurður mun gera kreppuna dýpri og skaðlegri en hún þarf að vera.
Góða helgi,
Drífa