Gera verður skýran greinarmun á ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi annars vegar og ólaunaðri samfélagslegri vinnu (sjálfboðavinnu) hins vegar. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög.
Gera verður skýran greinarmun á ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi annars vegar og ólaunaðri samfélagslegri vinnu (sjálfboðavinnu) hins vegar. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög. Dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem gjarnan finnst fólk í ólaunaðri vinnu skv. athugun ASÍ er fyrst og fremst við ýmiskonar ferðaþjónustu, nánar tiltekið vinnu á kaffi- og veitingahúsum, á gistiheimilum og hótelum, hestaleigum og við hellaskoðanir auk ýmiskonar blandaðra starfa á sveitabýlum og/eða við bændagistingu.
Rétt er að taka fram að fæði og húsnæði geta verið hluti af endurgjaldi fyrir vinnu. Í sumum kjarasamningum er tiltekið að starfsmaður skuli fá fæði og húsnæði sér að kostnaðarlausu auk kjarasamningsbundinna launa. Í öðrum samningum er heimild atvinnurekanda til að draga af kjarasamningsbundnum launum starfsmanns vegna fæðis og húsnæðis sem honum er lagt til en þó með miklum takmörkunum. Forsendan er alltaf sú að kjarasamningum sé fylgt. Það þýðir að ráðningarsamningur sé gerður, lágmarkslaun að minnsta kosti greidd og gefinn út launaseðill þar sem fram koma laun og önnur starfskjör og heimilaðir frádráttarliðir. Allt endurgjald fyrir vinnu skal síðan telja fram til skatts og skila hinu opinbera, stéttarfélögum og sjóðum því sem þeirra er. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi þýðir að atvinnurekendur sem nota hana hagnast á kostnað samneyslunnar og skapa sér bæði ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði. ASÍ hefur óskað eftir ákvarðandi bréfi frá RSK um þetta efni.
Ólaunuð vinna borgara frá löndum utan EES við efnahagslega starfsemi þýðir að viðkomandi fyrirtæki gerast brotleg við lög um atvinnuréttindi útlendinga og baka sér refsiábyrgð í leiðinni.
Úrræði s.s. á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og samninga ASÍ og SA um vinnustaðaeftirlit og útlendinga á íslenskum vinnumarkaði færa stéttarfélögum starfsmanna sem hagsmuna eiga að gæta fjölmörg úrræði til að takmarka undirboð á vinnumarkaði með ólaunaðri vinnu.
Einstaklingar sem „ráða sig“ í ólaunaða vinnu njóta ekki tryggingaverndar eins og kjarasamningar kveða á um og gagnvart sjúkra- og almannatryggingakerfinu njóta þeir mjög takmarkaðra réttinda. Almennt má álykta að viðkomandi einstaklingar njóti mjög takmarkaðrar tryggingaverndar.
ASÍ og aðildarsamtök þess munu ekki þola undirboð á vinnumarkaði og brot sem felast í ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi. Jafnframt hefur ASÍ kallað eftir samstarfi við stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins um að uppræta slíka brotastarfsemi.