Haustið 2012 sömdu Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og VM–Félag vélstjóra og málmtæknimanna loks við Landssamband smábátaeigenda um kaup og kjör á smábátum en í þeim samningi voru uppgjör einfölduð nokkuð miðað við aðra kjarasamninga sjómanna. Þetta töldu nokkrar útgerðir smábáta leiða til verri kjara smábátasjómanna en annarra sjómanna en sá misskilningur hefur nú verið leiðréttur af Hæstarétti.
Eftir langa baráttu tókst haustið 2012 að ljúka kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og VM–Félags vélstjóra og málmtæknimanna við Landssamband smábátaeigenda um kaup og kjör á smábátum. Í þeim samningum voru uppgjör einfölduð nokkuð miðað við aðra kjarasamninga sjómanna þannig að skiptaprósentan var lækkuð en þess í stað eru aflahlutir reiknaðir af heildarverðmæti fiskafla en ekki 70% af honum eins og gert er í samningum fyrir stærri skipin. Nokkrar útgerðir smábáta töldu hins vegar að sú einföldum ætti að leiða til mun verri kjara smábátasjómanna en annarra sjómanna. Sá misskilningur hefur nú verið leiðréttur af Hæstarétti.
Ágreiningurinn laut að gildi fyrrgreinds kjarasamnings frá 2012 gagnvart 1.gr. laga nr. 24/1986, með síðari breytingum, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Samkvæmt kjarasamningi smábátasjómanna skal reikna aflahlut af heildarverðmæti fiskafla en skv. lögunum skal reikna aflahlut af 70% af heildarverðmæti. Á móti kemur lægri skiptaprósenta fyrir smábátasjómenn. Þegar upp er staðið eru kjörin sambærileg en útgerðir smábáta losna við flókna útreikninga þar sem 70% viðmiðunin getur breyst í samræmi við þróun olíuverðs. Nokkrar útgerðir smábáta töldu, að þrátt fyrir ákvæði kjarasamningsins um að reikna bæri aflahlut af heildarverðmæti afla, væri þeim skylt að reikna hann af 70% af heildarverðmæti.
Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur, í dómi sínum frá 5. mars sl., komust að þeirri niðurstöðu að ákvæði kjarasamningsins stæðust fullkomlega. Í HRD 515/2014 segir: „Í samningarétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga.“