Dagana 8. og 9. febrúar stóð Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins og voru þeir að þessu sinni haldnir á Lækjarbrekku í miðbæ Reykjavíkur. Þetta var í þriðja skipti sem slíkir dagar voru haldnir.
Dagana 8. og 9. febrúar stóð Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins og voru þeir að þessu sinni haldnir á Lækjarbrekku í miðbæ Reykjavíkur. Þetta var í þriðja skipti sem slíkir dagar voru haldnir. Mætingin var með besta móti en alls mættu 30 fróðleiksfúsir fulltrúar frá alls 14 félögum. Lagt var upp með að hafa dagskrána sem gagnlegasta og því var leitað til þátttakenda eftir hugmyndum.
Á dagskrá voru erindi af ýmsum toga. Fyrri daginn fór Bergþóra Ingólfsdóttir, lögmaður ítarlega og af sinni alkunnu snilld yfir kröfugerðir og vinnuferla við innheimtukröfur vegna van- eða ógreiddra launa . Henni til halds og traust var Guðrún Elín Pálsdóttir frá Verkalýðsfélagi Suðurlands. Í framhaldinu fjallaði Rakel Davíðsdóttir sálfræðingur um lykilinn að því að skapa góðan starfsanda á litlum vinnustöðum og benti á praktísk ráð í þeim efnum.
Síðari dagurinn var einnig fróðlegur en þá hóf Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, dagskrána á yfirferð um verkefnin sem eru framundan hjá SGS. Þar á eftir stigu þeir félagar, Hjalti Tómasson og Þór Hreinsson frá Bárunni, á stokk og ræddu vinnustaðaeftirlit út frá hinum ýmsu hliðum, þó með ríkri áherslu á starf og reynslu þeirra sem eftirlitsfulltrúa. Í lokin leiddi Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ, gesti um frumskóg lífeyrismálanna – eitthvað sem mun vafalaust koma þátttakendum til góða síðar meir.
Eins og áður sagði var þetta í þriðja skipti sem SGS stendur fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk stéttarfélaganna og var góður rómur gerður að þeim í þetta skiptið eins og fyrr. Oft sköpuðust líflegar umræður og fólk var óhrætt að spyrja út í hin ýmsu atriði. Þá eru slíkir dagar ekki síst mikilvægir upp á félagslega þáttinn, þ.e. að fólk allsstaðar af landinu komi saman til að fræðast, ræða saman og eiga skemmtilegar stundir.