Stéttarfélögin í Skagafirði stóðu fyrir sinni árlegu hátíðardagskrá á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks í gær.
Dagskráin fór fram í sal Fjölbrautaskólans og var hún að venju vel sótt.
Stéttarfélögin í Skagafirði stóðu fyrir sinni árlegu hátíðardagskrá á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks í gær. Dagskráin fór fram í sal Fjölbrautaskólans og var hún að venju vel sótt.
Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar stéttarfélags setti hátíðina og Geirmundur Valtýsson spilaði af sinni alkunnu snilld á nikkuna undir borðhaldi en Kvenfélag Skarðshrepps reiddi fram dýrindis kaffiveitingar.
Ræðumaður dagsins var Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og gerði hún nýgerða kjarasamninga að umræðuefni í ræðu sinni. Hér má lesa ræðu hennar í heild sinni.
Skagfirski Kammerkórinn flutti skemmtilegt safn af vorlögum sem áttu sannarlega vel við í góðviðrinu og að því loknu stigu nemendur Grunnskólans austan vatna á stokk. Sungin voru nokkur af frægustu Júróvisjónlögunum sem Íslendingar hafa sent í keppnina og ef flutningur íslensku keppendanna í ár verður eins skemmtilegur og þessi er nokkuð ljóst að keppnin verður haldin hér á landi að ári liðnu.