Skip to main content
Stéttarfélag.is

Verð á mjólkurvöru og brauð- og kornvöru hækkar oftast

By May 30, 2023No Comments
Vorukarfa 3

 

Þann 9. maí kannaði verðlagseftirlit ASÍ verð á sömu matvörum og kannaðar voru 29. mars í fyrra, 13 mánuðum fyrr. Á þeim tíma hefur almennt verðlag hækkað um rúm 11% og matvælaverð um tæp 14%. Af 739 verðmælingum hefur verð staðið í stað eða lækkað í 144 tilfellum en hækkað í 602 tilfellum – fjórfalt fleiri tilfellum. Verð hækkaði oftast á mjólkurvöru eða á sjö vörum fyrir hverja vöru sem það hækkaði ekki. Í flokki brauð- og kornmetis og hækkaði verð á sex vörum fyrir hverja vöru sem ekki hækkaði í verði. Mjólkurvara og brauð- og kornvara voru einnig meðal flokka þar sem verð hækkaði hvað mest eða um 13,9% og 14,5% að meðaltali. Verð á grænmeti og ávöxtum hækkaði mest milli mælinga eða um 25% að meðaltali en hafa ber í huga að mestar verðsveiflur eru í þessum vöruflokki og að ódýrasta kílóverð er tekið hverju sinni og úrval á hverjum tíma getur haft áhrif. Verðbreytingar í einstaka vöruflokkum í könnuninni endurspegla ekki endilega almennar verðlagshækkanir á matvöru þar sem vægi matvöruflokka í könnuninni er ekki metið líkt og í vísitölu neysluverðs auk þess sem fáar vörur eru undir í sumum vöruflokkum.  

 

Verð hækkaði einnig mikið í flokkunum sælgæti og snakk (17,3%) og te, kaffi og kakó (16,4%). Mjög fáar vörur voru þó mældar í þessum flokkum á meðan mun fleiri vörur voru undir í flokki mjólkurvara og brauð- og kornvöru sem gefur betri mynd. Kjöt- og fiskvara hækkaði að meðaltali um 11,5% milli mælinga og hækkuðu þrjár vörur í verði fyrir hverja eina sem hækkaði ekki í verði.  

Í flokknum dósamatur og þurrvörur hækkaði verð á aðeins tveimur vörum fyrir hverja sem ekki hækkaði og nam meðalhækkunin í flokknum 10,1%. Drykkjarvörur hækkuðu minnst í verði milli mælinga (að meðaltali 7,2%) þó að verð hafi hækkað hvað oftast í þeim flokki eða á sex vörum fyrir hverja eina sem hækkaði ekki í verði. 

 

Hlutfallslega fæstar vörur hækka í verði í Kjörbúðinni, Iceland og Fjarðarkaupum 

Þær verslanir sem höfðu hækkað verð á hlutfallslega fæstum vörum voru Kjörbúðin í Sandgerði, Iceland og Fjarðarkaup – 1,4 til 2,3 hækkanir fyrir hverja vöru sem ekki hækkaði. Í öðrum verslunum var hlutfallið 7 til 11. 

 

Sem dæmi um verðhækkanir á einstaka vörum má nefna verð á einum lítra af Nýmjólk sem hækkar á bilinu 15-22% milli ára og verð á Smjörva sem hækkar um 10-27%. Verð á heimilisbrauði hækkar um 11-30% og verð á Homeblest kexi um 15-59%. Verð á Heinz bökuðum baunum hækkar einnig mikið í flestum verslunum eða á bilinu 8-47% en 22% eða meira í öllum verslunum nema einni. Merrild kaffi hækkar um 17-45% en um 37% eða meira í öllum verslunum nema einni. Java Mokka kaffi frá Te og kaffi hækkar hins vegar töluvert minna í verði í flestum verslunum (4-29%) og lækkar í verði í tveimur verslunum (um 9-14%)Þá hækkar Nan pro barnamjólk í fernu um 14-20% en Hipp þurrmjólk mun minna eða á bilinu 0-14% í öllum verslunum nema einni þar sem hún hækkar um 51%.

 

Hafa ber í huga að ekki voru allar vörur til í báðum verðmælingum hjá öllum verslunum og eru því mismargar samanburðarmælingar hjá verslununum. Þá voru fáar vörur í sumum flokkum og því er ekki hægt að draga ályktanir um almennar verðlagshækkanir út frá þeim. Hér að neðan má sjá hvernig verð í einstaka matvöruflokkum hefur hækkað í vísitölu neysluverðs á tímabilinu sem verðmælingarnar ná til. 

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com