Skip to main content
AldanVMF

Verðbólgan 0,8% – lækkun á sykurskatti skilar sér ekki

By March 3, 2015No Comments

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% í febrúar og er ársverðbólga óbreytt frá fyrra mánuði 0,8% að því er fram kemur í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Húsnæðisverð er enn leiðandi í hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hefur lækkað um 0,9% undanfarið ár, sé húsnæðisliðurinn undanskilinn.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% í febrúar og er ársverðbólga óbreytt frá fyrra mánuði 0,8% að því er fram kemur í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Húsnæðisverð er enn leiðandi í hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hefur lækkað um 0,9% undanfarið ár, sé húsnæðisliðurinn undanskilinn. 

Breytingar á verðlagi í mánuðinum má að mestu rekja til þess að útsöluáhrif á fötum og skóm ganga til baka, húsnæðisverð heldur áfram að hækka og eldsneytisverð hækkar frá fyrra mánuði. Á móti vegur að flugfargjöld til útlanda og verð á mat- og drykkjarvörum lækkar frá því í janúar. Athygli vekur þó að lækkun á mat- og drykkjarvörum má helst rekja til lækkunar á kjöti og ávöxtum en áhrif af lækkun vörugjalda af sykri og sætum matvörum eru nokkuð minni en ætla mætti.  Þá hafa bækur hækkað talsvert undanfarna mánuði umfram það sem hækkun virðisaukaskatts gefur tilefni til auk þess sem lítil áhrif sjást af afnámi vörugjalda í verðlagi á bílavarahlutum og byggingarvörum.

Breytingar á neyslusköttum um áramót hafa mest áhrif á vörur í neðra þrepi virðisaukaskattsins sem hækkaði úr 7% í 11% sem gefur að hámarki tilefni til 3,7% hækkunar á verðlagi. Meðal liða í neðra þrepinu eru matur og óáfengar drykkjarvörur, veitinga- og gistiþjónusta, bleiur, bækur, dagblöð, tímarit og geisladiskar, heitt vatn og raforka til húshitunar, afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva og aðgangur að vegamannvirkjum (Hvalfjarðargöng). Auk þess hefur afnám vörugjalda áhrif til lækkunar á verð á sykri og sætum matvörum, stórum raftækjum ss. sjónvörpum, hljómflutningstækjum, stærri tækjum fyrir eldhús og þvottahús, ýmsar byggingavörur og bílavarahluti.

Frá því neysluskattsbreytingarnar tóku gildi um áramót hefur matar- og drykkjarliður vísitölunnar hækkað um 1,9% en þegar undirliðir eru skoðaðir nánar má sjá skýrar vísbendingar um að lækkun vörugjalda á sykri og sætindum ( s.k. sykurskattur) hefur enn ekki skilað sér að fullu. Sem dæmi má nefna að sætabrauð og kökur hafa hækkað í verði um 3,9% frá ármótum sem er umfram hækkun á virðisaukaskatti og engin sjáanleg áhrif lækkunar á vörugjöldum á þessum vörum. Þá hafa sykur, súkkulaði og sætindi samtals lækkað um 4,8% frá því um ármót sem er nokkuð minna en áhrif neysluskattsbreytinganna gefa tilefni til en einkum má rekja það til lítillar lækkunar á súkkulaði og sælgæti.

Bækur halda áfram að hækka í febrúar og hafa frá því um áramót hækkað um 5,6% sem er talsvert umfram þau 3,7% sem hækkun á virðisaukaskatti gefur tilefni til.  Sömu sögu er að segja um verð á heitu vatn sem hefur hækkað um 4,3% frá því í desember og raforka til húshitunar sem hefur hækkað um 5,4%.   Veitinga- og gistiþjónusta hefur hins vegar hækkað minna eða um 2,2% frá því í desember þrátt fyrir að sá liður hafi hækkað um 0,5% í febrúar.

Lækkun á raftækjum undanfarna mánuði gengur að hluta til baka í febrúar en útsölur voru víða á þessum vörum í upphafi árs. Stór heimilistæki sem flest báru 20% vörugjald auk þess sem almennur virðisaukaskatti á þeim lækkaði úr 25,5% í 24% hafa lækkað um 6,8% í verði frá því desember en um rúm 13% frá því í september sl. þegar bera fór á því að raftækjasalar auglýstu vörur án vörugjalda í kjölfar tilkynningar um áformað afnám þeirra. Lækkun á sjónvörpum, útvörpum, myndspilurum og hljómflutningstækjum gengur einnig að hluta til til baka í mánuðinum en þessar vörur hafa frá því í desember lækkað um 5-5,5% og hafa frá því í september lækkað um 16-19% en þessar vörur báru flestar 25% vörugjald.

Minni áhrif sjást af afnámi 15% vörugjalda og lækkunar á almennum virðisaukaskatti á verðlag bílavarahluta sem hafa lækkað um 2,5% frá því í desember. Mjög lítil áhrif sjást hins vegar af þessum sömu breytingum í verði á byggingarvörum en efni til viðhalds lækkar um 0,85% í febrúar og hefur frá því um áramót lækkað um 0,7%.

Af öðrum breytingum í mánuðinum má nefna að verð á símaþjónustu hækkar um 1,8% frá fyrra mánuði og tannlæknaþjónusta um 1,1%.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com