Skip to main content
AldanVMF

Verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland vestra

By April 11, 2016No Comments

Sögulegt samkomulag hefur náðst á milli 14 stéttarfélaga sem eru starfandi í Eyjafirði og á Norðurlandi vestra um stóraukið vinnustaðaeftirlit með því að ráða einn sameiginlegan verkefnastjóra fyrir vinnustaðaeftirlit á svæðinu.

Sögulegt samkomulag hefur náðst á milli 14 stéttarfélaga sem eru starfandi í Eyjafirði og á Norðurlandi vestra um stóraukið vinnustaðaeftirlit með því að ráða einn sameiginlegan verkefnastjóra fyrir vinnustaðaeftirlit á svæðinu.

Samningurinn tekur gildi frá 1. maí nk. og gildir í átján mánuði, eða til 30. október 2017. Litið er á að þetta fyrsta tímabil samningsins sé tilraunatímabil þar sem þjónustan er í mótun og uppbyggingu og því er nauðsynlegt að endurskoða allan samninginn fyrir lok þessa tímabils í ljósi reynslunnar. Fjórum mánuðum fyrir lok samningstímans skulu samningsaðilar endurskoða samningstextann í ljósi reynslunnar með það að markmiði að nýr samningur taki gildi 1. nóvember 2017 eða að samstarfinu verði slitið.

Félögin sem standa sameiginlega að þessari ráðningu eru Eining-Iðja, sem ber ábyrgð á verkefnastjóranum, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Byggiðn – Félag byggingamanna, Rafiðnaðarsamband Íslands, Aldan stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Iðnsveinafélag Skagafjarðar, Verslunarmannafélag Skagafjarðar, Félag leiðsögumanna, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís, matvæla og veitingafélag Íslands, Félag iðn- og tæknigreina og Félag hársnyrtisveina.

Enn öflugara vinnustaðaeftirlit
Meginmarkmiðið með þessari ráðningu er að stuðla að því að á félagssvæðum áðurnefndra félaga verði enn öflugara vinnustaðaeftirlit en nú er, með heimsóknum og nánari eftirliti frá verkefnastjóra og starfsmönnum stéttarfélaga. Einnig að hafa gott samband við stofnanir ríkisins er fara með málefni vinnumarkaðarins, t.d. Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitið og Útlendingastofnun. Sérstök áhersla er lögð á að koma snemma að málum og koma í veg fyrir að brotastarfssemi þróist á félagssvæðum stéttarfélaganna.

Einn réttur – ekkert svindl
Verkefnastjórinn mun jafnframt nýtast vel í verkefninu Einn réttur – ekkert svindl sem Alþýðusamband Íslands í samstarfi við aðildarsamtök sín stendur í. Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi. Verkefnið er tvískipt, annars vegar beinist það að brotum gagnvart erlendu vinnuafli og hins vegar brotum á ungu fólki en báðir eiga þessir hópar sammerkt að vera illa upplýstir um rétt sinn á vinnumarkaði.

Búið er að ganga frá ráðningu verkefnastjórans og mun Vilhelm Adolfsson gegna starfinu frá og með 1. maí nk. Vilhelm býr yfir góðri tölvuþekkingu og hefur gott vald á íslensku og ensku, bæði í ræðu og riti. Vilhelm er menntaður lögreglumaður en hann lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins 2004 og starfaði á árum áður sem lögreglumaður á Austurlandi og á Akureyri. Síðan 2010 hefur hann starfað í Becromal á Akureyri og hefur verið trúnaðarmaður starfsmanna frá árinu 2011.

Vilhelm verður með aðsetur á skrifstofu Einingar-Iðju á Akureyri en mun skipuleggja og fara í vettvangsferðir á vinnustaði á samningssvæðinu sem er Eyjafjörður, Skagafjörður og Húnavatnssýslur.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com