Skip to main content
AldanStéttarfélag.isVMF

Víða miklar hækkanir á leikskólagjöldum milli ára

By May 5, 2022No Comments

 

Leikskolagjold

 

Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá 20 stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að leikskólagjöld, 8 tíma vistun m. fæði, hækkuðu hjá 17 sveitarfélögum af 20. Fjórtán sveitarfélög hækkuðu gjöld á bilinu 3 -5,7%, þar af hækkuðu gjöld umfram 4% hjá átta sveitarfélögum. Mest hækkuðu almenn gjöld (gjöld án afslátta), 8 tímar m. fæði, hjá Ísafjarðarbæ, 5,7% en lækkuðu mest hjá Mosfellsbæ, 3,6%. Sömu gjöld fyrir einstæða foreldra hækkuðu einnig mest hjá Ísafjarðarbæ, 6,7% en lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, 3,5%. Verðlagseftirlit ASÍ hefur nú gert aðgengilegt nýtt gagnvirkt mælaborð með tölulegum upplýsingum um leikskólagjöld. Mælaborðið má nálgast á www.asi.is/leikskólagjöld

Garðabær er með hæstu almennu leikskólagjöldin fyrir 8 tíma vistun með fæði og eru þau 50% hærri en lægstu gjöldin sem eru hjá Reykjavíkurborg. Á mánuði nemur munurinn á hæstu og lægstu gjöldunum 14.291 kr. og 142.910 kr. á ári (m. v. 10 mánaða vistun). Leikskólagjöld fyrir einstæða foreldra (8 tímar m. fæði) eru aftur á móti hæst hjá Grindavíkurbæ og eru þau 120% hærri en lægstu gjöldin hjá Reykjavíkurborg.

Gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um leikskólagjöld
Til að glöggva sig betur á breytingum á leikskólagjöldum og muni á þeim milli sveitarfélaga er nú hægt að notfæra sér nýtt gagnvirkt mælaborð sem hefur verið gert aðgengilegt á vef ASÍ. Mælaborðið sýnir m. a breytingar á leikskólagjöldum milli ára, samanburð á leikskólagjöldum milli sveitarfélaga, afslætti fyrir forgangshópa og breytingar á leikskólagjöldum við að lengja vistunartímann. Í mælaborðinu er hægt að velja forsendur eins og sveitarfélög, lengd vistunartíma og fjölda barna á leikskóla. Mælaborðið má nálgast á www.asi.is/leikskólagjöld

Átta tíma leikskólavistun m. fæði hækkaði mest hjá Ísafjarðarbæ en lækkuðu mest hjá Mosfellsbæ og Fjarðabyggð
Almenn leikskólagjöld, 8 tímar með fæði hækkuðu í flestum sveitarfélögum eða 17 af 20 sveitarfélögum. Gjöldin hækkuðu yfir 5% í tveimur sveitarfélögum, á bilinu 4-5% í sex sveitarfélögum og um 3-4% í sex sveitarfélögum. Mest hækkuðu almenn leikskólagjöld, 8 tíma vistun m. fæði, hjá Ísafjarðarbæ, um 5,7% sem má rekja til 12,9% hækkunar á fæðisgjöldum og 2,4% hækkun á tímagjaldi. Hækkunin nemur 2.219 kr. á mánuði eða 22,190 kr. á ári miðað við 10 mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Grindavíkurbæ, 5,2%.
Gjöldin lækkuðu í tveimur sveitarfélögum, mest hjá Mosfellsbæ, 3,6% og næst mest hjá Fjarðabyggð, 2%. Gjöldin stóðu í stað hjá Vestmannaeyjabæ milli ára.

Svipaðar breytingar má sjá á gjöldum fyrir 8 tíma með fæði fyrir einstæða foreldra en þar vegur fæðiskostnaður þyngra og því er hækkunin á gjöldum fyrir forgangshópa hjá Ísafjarðarbæ meiri, 6,7%. Að sama skapi lækka gjöldin fyrir einstæða foreldra meira en almenn gjöld hjá Fjarðarbyggð, 3,5% en þar vegur lækkun á fæðiskostnaði um 22% þungt.

Almenn leikskólagjöld hjá Kópavogsbæ hækka um 45% við að bæta 9. tímanum við
Tímagjald fyrir 9. tímann er að öllu jafna hærra en tímagjald fyrstu 8 tímana. Mest hækkaði tímagjald fyrir 9. tímann hjá Grindavíkurbæ, 5,6% og næst mest hjá Suðurnesjabæ, 5%. Mosfellsbær er eina sveitarfélagið sem lækkaði gjöld fyrir 9. tímann og nemur lækkunin 5%. Gjaldið stendur í stað hjá Vestmannaeyjabæ. Fyrir einstæða foreldra hækkaði gjald fyrir 9. tímann mest hjá Grindavíkurbæ, 5,6% og næst mest hjá Suðurnesjabæ, 5%. Í Hafnarfirði lækkaði gjaldið fyrir einstæða foreldra mest, um 28% eða 2.822 kr. á mánuði sem gerir 28.220 kr. á ári.

Þar sem tímagjald fyrir 9. tímann er hærra, getur verið kostnaðarsamt að bæta honum við til að lengja dvalartímann. Mest hækka almenn leikskólagjöld (vistun + fæði) þegar 9. tímanum er bætt við í Kópavogi, um 45% eða 15.765 kr. á mánuði. Næst mest hækka gjöldin í Reykjavík, 40% eða 11. 240 kr. Með þessu verða gjöld fyrir 9 tíma í Kópavogi með þeim hæstu í stað þess að vera í lægri endanum eins og sjá má á grafinu hér að neðan.

Það er einnig dýrast fyrir einstæða foreldra í Kópavogi að bæta við 9. tímanum. Þar hækka gjöldin um 40%, eða 11.034 kr. á mánuði. Næst mest er hækkun fyrir einstæða í Vestmannaeyjum, 29% eða 11.034 kr. á mánuði.

Garðabær og Múlaþing með hæstu almennu leikskólagjöldin
Hæstu almennu leikskólagjöldin fyrir 8 tíma vistun með fæði eru hjá Garðabæ, 46.662 kr. Grindavíkurbær er með næst hæstu gjöldin, 42.590 kr. Lægstu gjöldin eru hjá Reykjavíkurborg, 28.371 kr. en næst lægstu hjá Mosfellsbæ, 29.054 kr.

Ef gjöld fyrir 9 tíma með fæði eru skoðuð má sjá að þau eru hæst hjá Múlaþingi, á leikskólunum Hádegishöfða og Tjarnaskógum, 52.280 kr. sem eru 59% hærri en lægstu gjöldin hjá Mosfellsbæ, 32.917 kr. Á eftir Múlaþingi koma Garðabær og Kópavogur með önnur og þriðju hæstu gjöldin. Reykjavíkurborg er með næst lægstu gjöldin, 39.611 kr. sem eru þó rúmum sex þúsund krónum hærri en lægstu gjöld hjá Mosfellsbæ.

Grindavíkurbær og Suðurnesjabær með hæstu gjöldin fyrir einstæða foreldra
Hæstu gjöldin fyrir 8 tíma vistun m. fæði fyrir einstæða foreldra eru hjá Grindavíkurbæ, 34.990 kr. sem er 86% hærra en lægstu gjöldin hjá Reykjavíkurborg, 18.851 kr. Á eftir Grindavíkurbæ koma Suðurnesjabær og Norðurþing með önnur og þriðju hæstu gjöldin. Hafnarfjarðarbær er með næst lægstu gjöldin á eftir Reykjavíkurborg, 22.358 kr.

Hæstu gjöld fyrir 9 tíma vistun m. fæði fyrir einstæða foreldra eru hjá Suðurnesjabæ, 42.000 kr. en næst hæstu hjá Grindavík, 40.270 kr. Reykjavíkurborg er með lægstu gjöldin fyrir 9 tíma vistun fyrir einstæða foreldra, 23.499 kr. og Hafnarfjörður næst lægstu gjöldin, 25.180 kr.

Afslættir af leikskólagjöldum fyrir einstæða foreldra og námsmenn útbreiddir en sjaldgæfara að öryrkjar og atvinnulausir fái afslátt af gjöldum
Öll sveitarfélögin bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir forgangshópa en misjafnt er hverjir falla undir þá skilgreiningu hjá sveitarfélögunum. Öll tuttugu sveitarfélögin bjóða upp á afslætti fyrir einstæða foreldra og öll sveitarfélögin nema eru með lægri gjöld ef báðir foreldrar eru í námi. Óalgengara er að öryrkjar eða atvinnulausir fái afslátt af leikskólagjöldum en sjö sveitarfélög af tuttugu eru með lægri gjöld ef báðir foreldrar eru öryrkjar og sex ef annað foreldri er öryrki. Enn færri bjóða upp á afslætti af gjöldum fyrir atvinnulausa foreldra.

Um úttektina
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla, á tímagjöldum og fæðisgjöldum hjá 20 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2021 til 1. janúar 2022. Óheimilt er að vitna í úttektina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. Þar sem 9 tíma vistun er ekki í boði er gjald fyrir tíma umfram 8 tíma uppreiknað. Afslættir fyrir forgangshópa miðast við þá afslætti sem einstæðir foreldrar fá eða hærri tekjuviðmið hjá þeim sveitarfélögum sem eru með tekjuviðmið.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com