Skip to main content

Verðlagseftirlit ASÍ var með verðkönnun á matvöru í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum mánudaginn 1. september. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun Víðis Garðatorgi og lægsta verðið var oftast að finna í verslun Bónus Nýbýlavegi.
Í um helmingi tilvika var allt að fjórðungs verðmunur, en sjá mátti allt að 132% verðmun á milli verslana.

Verðlagseftirlit ASÍ var með verðkönnun á matvöru í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum mánudaginn 1. september. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun Víðis Garðatorgi og lægsta verðið var oftast að finna í verslun Bónus Nýbýlavegi. Í um helmingi tilvika var allt að fjórðungs verðmunur, en sjá mátti allt að 132% verðmun á milli verslana.

Vöruúrvalið minnst í Bónus
Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til í verslun Fjarðarkaupa eða 99 af 101, næstflestar voru til í verslun Hagkaupa Garðabæ eða 96.Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Bónus eða 78 af 101, þar á eftir komu verslanirnar Iceland Vesturbergi, Nóatún Hamraborg og Samkaup-Úrval Hafnarfirði sem áttu til 82 vörur.

Þegar borin eru saman verð á milli verslana á þessari 101 vörutegund sem verðlagseftirlitið skoðaði var verslunin Víðir með hæsta verðið á 41, Samkaup-Úrval á 21, Nóatún 17 og Hagkaup 15. Bónus var með lægsta verðið á 64 vörutegundum af þeim 101 sem skoðaðar voru og Krónan Granda á 21.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á 500 ml. stoðmjólk sem var dýrust á 109 kr./kg. hjá Nettó, Nóatúni, Samkaupum-Úrval, Hagkaupum og Víði en ódýrust á 108 kr./kg. hjá Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum, verðmunurinn var 1 króna. Mestur verðmunur í könnuninni er á frosnu mangói sem var ódýrast á 459 kr./kg. hjá Bónus en dýrast á 1.064 kr./kg. hjá Hagkaupum, verðmunurinn var 605 kr. eða 132%.

121% verðmunur á appelsínum
Af þeim 9 tegundum ávaxta og grænmetis sem skoðaðar voru, var verðmunurinn að lágmarki 32% en sjá mátti allt að 121% mun. Mestur verðmunur var á appelsínum, sem voru dýrastar á 498 kr./kg. hjá Víði en ódýrastar hjá Bónus á 225 kr./kg., verðmunurinn var 273 kr. eða 121%. Minnstur verðmunur var á fersku engiferi, sem var ódýrast á 719 kr./kg. hjá Bónus en dýrast á 948 kr./kg. hjá Iceland, verðmunurinn var 229 kr. eða 32%.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á 250 gr. sesam hrökkkexinu frá Burger sem var dýrast á 199 kr. hjá Iceland en ódýrast á 169 kr. hjá Bónus, verðmunurinn var 30 kr. eða 18%. Ferskir kjúklingaleggir voru dýrastir á 998 kr./kg. hjá Víði en ódýrastir á 756 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum sem gerir 32% verðmun. Hunt´s pasta sósa m/osti og hvítlauk 680 gr. var ódýrust á 219 kr. hjá Bónus en dýrust á 289 kr. hjá Víði, verðmunurinn 32%. Þykkni frá Egils m/ananasbragði var ódýrast á 489 kr./l. hjá Bónus en dýrast á 585 kr./l. hjá Nóatúni sem er 20% verðmunur.

Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ.

Ófullnægjandi verðmerkingar
Verðlagseftirlitið bendir á að verslunum ber skylda að verðmerkja allar vörur með hillumiða. Á þessu er hins vegar misbrestur og ítrekað er umbeðin vara ekki verðmerkt. Í þessari könnun var verð á 101 vörutegund skoðað. Oftast vantaði verðmerkingu hjá Hagkaupum Garðabæ eða 8 sinnum, hjá Nóatúni Hamraborg 6 sinnum, Nettó Hverafold 5 sinnum, Krónunni Granda 4 sinnum en sjaldnar hjá Bónus, Iceland, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrval og Víði.

Mikilvægt er að verslanir passi upp á þetta svo að neytendur geti séð hvað sú vara kostar sem þeir ætla að kaupa áður en farið er á kassa. Skanni kemur ekki í staðinn fyrir hillumiða, hann er eingöngu til að auðvelda neytendum að finna út endalegt verð á forpakkaðri vöru.

Í könnuninni var skráð hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Nýbýlavegi, Krónunni Granda, Nettó Hverafold, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Hamraborg, Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði, Hagkaupum Garðabæ og Víði Garðatorgi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com