Skip to main content
AldanStéttarfélag.isVMF

Vörukarfa ASÍ lækkar í 4 verslunum af 8 og hækkar lítillega í tveimur

By September 27, 2022No Comments
Asi Frettir Verdlag2
Vörukarfa ASÍ hækkaði í fjórum af átta matvöruverslunum og lækkaði í fjórum verslunum á fjögurra mánaða tímabili, frá byrjun maí til byrjun september. Mest hækkaði vörukarfan hjá Hagkaup, 4,6% og næst mest hjá Heimkaup, 4,3%. Mest lækkaði vörukarfan í Krambúðinni, 3,9% og um 2,6% hjá Krambúðinni. Vörukarfa ASÍ endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna.

4,6% hækkun á vörukörfunni í Hagkaup og 4,3% í Heimkaup

Mest hækkaði vörukarfan í Hagkaup, 4,6% og hækkaði verð í versluninni í öllum vöruflokkum nema einum.  Mest hækkaði kjötvara og grænmeti í verði hjá Hagkaup en einnig verð á brauð- og kornvöru, mjólkurvörum og hreinlætis- og snyrtivöru. Næst mest hækkaði verð hjá Heimkaup, 4,3% og hækkaði verð í öllum vöruflokkum verslunarinnar nema flokki grænmetis. Í Heimkaup hækkaði verð á ávöxtum og kjötvöru mest. Lítil hækkun var á vörukörfunni í Bónus, 0,9% og Krónunni, 0,4%. Hafa ber í huga að verð í flokki kjötvöru, grænmetis og ávaxta getur sveiflast milli kannanna.

 SJÁ NÁNAR Á HEIMASÍÐU ASÍ

Vörukarfan lækkar í öllum verslunum Samkaupa

Mest lækkaði verð í Krambúðinni, um 3,9%, 2,6% í Kjörbúðinni, 2,2% í Nettó og 1,5% í Iceland. Verslanirnar eru allar hluti af verslanakeðju Samkaupa. Verð á mjólkurvöru, ostum og eggjum lækkaði í öllum fjórum verslununum sem og verð á ávöxtum og grænmeti. Verð á drykkjarvöru í þremur verslunum verslunarkeðjunnar en stóð í stað í Nettó. Verð á hreinlætisvöru lækkaði einnig í öllum þessum verslunum nema Iceland.

Mestar verðhækkanir í flokki brauð- og kornvara, kjötvara og hreinlætis- og snyrtivara 

Verð á ávöxtum, og grænmeti lækkaði mest í könnuninni en verð á mjólkurvöru, ostum og eggjum lækkaði einnig nokkuð í sumum verslunum. Verð á kjötvöru hækkaði í helmingi verslana en lækkaði í helmingi verslana. Hafa ber í huga að ávextir, grænmeti og kjötvara eru matvöruflokkar þar sem verð sveiflast mest milli kannana.

Verð á ávöxtum lækkaði í öllum verslunum nema Heimkaup. Mest lækkaði verð á ávöxtum í Krambúðinni, 15,5% á meðan vöruflokkurinn hækkaði um rúm 23% í Iceland. Verð á grænmeti lækkaði í 5 af 8 verslunum, mest í Kjörbúðinni, 16,8%. Verð á kjötvöru lækkaði í 4 verslunum af 8, mest um 8% í Nettó en mest hækkun varð á kjötvöru í Hagkaup, 9,5%. Verð á brauð- og kornvöru hækkaði í meirihluta verslana sem og verð á hreinlætis- og snyrtivöru. Þá hækkaði verð á „ýmissi matvöru“ sem má rekja til töluverðra verðhækkana á fiskmeti en flokkurinn samanstendur af fiski, olíu og feitmeti og loks annarri matvöru, svo sem sósum, kryddi og dósamat.

Um könnunina
Verðkannanir á vörukörfunni voru gerðar 11. -18. maí 2022 og 8. – 15. september 2022. Verðlagseftirlit ASÍ mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland, Heimkaup og Krambúðinni. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com