Nýlega samþykkti Alþingi mikilvægar úrbætur á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda.
Nýlega samþykkti Alþingi mikilvægar úrbætur á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda nr. 45/2007 (áður lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra), lögum um starfsmannaleigur og fleiri lögum. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
- Markmið laganna um útsenda starfsmenn og starfsmannaleigur áréttuð.
- Lögin um útsenda starfsmenn ná nú til starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi þótt fyrirtækin séu ekki með starfsstöð hér á landi eða hafi gert samning við innlent notendafyrirtæki.
- Sjálfstætt starfandi einstaklingar af Evrópska efnahagssvæðinu skulu tilkynna sig til Vinnumálastofnunar og hefur stofnunin vald til að meta hvort um raunverulega verktöku eða gerviverktöku er að ræða og bregðast við með viðeigandi hætti.
- Víðtækara hlutverk og ríkari skyldur Vinnumálastofnunar.
- Ríkari skyldur eru lagðar á erlend þjónustufyrirtæki, þ.m.t. starfsmannaleigur, og sjálfstætt starfandi að veita nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi sína bæði í heimalandinu og hér á landi. Einnig er ríkari upplýsingaskylda á notendafyrirtæki.
- Ábyrgð notendafyrirtækis skv. lögum um útsenda starfsmenn nær til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja í byggingariðnaði eða mannvirkjagerð sem það gerir samninga við – svokölluð keðjuábyrgð.
- Ábyrgð notendafyrirtækis skv. lögum um starfsmannaleigur nær til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna allra innlendra sem erlendra fyrirtækja í öllum atvinnugreinum sem það gerir samninga við – svokölluð keðjuábyrgð.
- Tekin eru af tvímæli um að þau stjórnvöld hér á landi sem málið varða geti miðlað upplýsingum um starfsemina sín á milli.
- Kveðið er á um heimild Vinnumálastofnunar til að óska umsagnar stéttarfélaganna/aðila vinnumarkaðarins varðandi ráðningarsamninga, launaseðla og vinnutímaskýrslur og skyldur til að afhenda stéttarfélögunum slíkar upplýsingar sé eftir því leitað.
- Heimildir til að leggja á starfsemina dagsektir gerðar skýrari.
- Heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem veita Vinnumálastofnun ekki upplýsingar eða veita stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.
- Allar nauðsynlegar upplýsingar skulu veittar á íslensku eða ensku.