Samkvæmt kjarasamningum við sveitarfélögin er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem nái 70 ára aldri láti af störfum án sérstakrar uppsagnar.
Samkvæmt kjarasamningum við sveitarfélögin er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem nái 70 ára aldri láti af störfum án sérstakrar uppsagnar. Gildissvið þeirra ákvæða hefur nú verið þrengt með dómi Félagsdóms í málinu nr. 5/2020 frá 17.11 2020.
Verkalýðshreyfingin hefur byggt á því, að sé ákvæði kjarasamningsins ekki nýtt og haldi starfsmaður áfram störfum eftir það, sé réttarstaða hans hin sama og annarra starfsmanna þ.e. ráðningunni verði að ljúka með hefðbundinni uppsögn. Þetta hefur Félagsdómur nú staðfest í máli Verkalýðsfélags Vestfirðinga gegn Reykhólahreppi.
Gild rök má einnig færa fyrir því hvort ekki sé löngu tímabært að afnema þessi aldursákvæði kjarasamninga og þar sem þau er að finna í lögum enda mismunun á grundvelli aldurs bönnuð nema ríkar málefnalegar ástæður réttlæti annað. Þetta er nú tekið fram í lögum nr. 86/2018 en bann ákvæði laganna hvað aldur varðar tóku gildi 1.7 2019. Þó Félagsdómur vísi ekki sérstaklega til þessara laga eða reglna um bann við mismunun er hann gott innlegg í þá umræðu.
Sjá nánar umfjöllun á vinnuréttarvef ASÍ „Almennt bann við mismunun“.