Skip to main content
AldanVMF

Misrétti kynjanna mikið á vinnumarkaði

By November 25, 2015No Comments

Í dag er haldið jafnréttisþing og skýrsla velferðarráðuneytisins um jafnréttismál á Íslandi er gefin út í tengslum við það. Sérstaklega er fjallað um kynjamisrétti á vinnumarkaði, bæði hvað varðar skiptingu á milli starfsgreina og ábyrgðastaða. Kynbundinn launamunur fer minnkandi en illa gengur að loka bilinu.

Í dag er haldið jafnréttisþing og skýrsla velferðarráðuneytisins um jafnréttismál á Íslandi er gefin út í tengslum við það. Sérstaklega er fjallað um kynjamisrétti á vinnumarkaði, bæði hvað varðar skiptingu á milli starfsgreina og ábyrgðastaða. Kynbundinn launamunur fer minnkandi en illa gengur að loka bilinu.

Árið 2008 mældist óskýrður launamunur kynjanna 7,8% en árið 2013 5,7%. Fleiri konur en karlar vinna hlutastörf og fleiri karlar en konur eru á vinnumarkaði. Hinn kynskipti vinnumarkaður gerir það að verkum að breytingar á störfum koma misilla niður á kynjunum. Þannig eru karlar í yfirgnæfandi meirihluta í byggingariðnaðinum og þegar kreppir að þar verða fleiri karlar en konur atvinnulausir. Við niðurskurð í velferðarþjónustu verða hins vegar fleiri konur atvinnulausar. Ekki virðist draga úr kynskiptingu á vinnumarkaði, þannig hefur konum fækkað mikið í starfsstétt iðnaðarmanna og sérhæfðs verkafólks,  úr 10% niður í aðeins 3% á 13 árum. Í Heilbrigðis- og félagsþjónustu eru karlar innan við 20% starfandi. Á sex ára tímabili verður mjög lítil breyting á kynskiptingu vinnumarkaðarins.

Mikil kynjaskekkja í menntun getur skýrt að stórum hluta kynskiptingu vinnumarkaðarins, en konur eru miklu fleiri en karlar í háskólum landsins en karlar aftur á móti miklu fleiri en konur á svokölluðu viðbótarstigi, svo sem meistaranámi löggiltra iðngreina, iðnfræði, leiðsögunámi, ferðafræðinámi, margmiðlun og 4. stigi vélstjórnar. Ekki hafa orðið miklar breytingar á kynjaskiptingu í menntun síðustu 13 árin nema hvað konur hafa sótt í mun meira mæli í doktorsnám en áður.

Í skýrslunni er töluvert rætt um fæðingarorlof en sífellt færri karlar nýta sér orlofið og fleiri konur bera því ábyrgð á umönnun barna. Umönnunarbilið veldur sérstökum áhyggjum þar sem brúa þarf bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Yfirleitt eru það konurnar sem brúa það bil og hefur það áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Framkvæmdaáætlun gegn launamisrétti kynjanna er kynnt og eru áherslurnar varðandi vinnumarkaðinn þessar á næstu árum:

Framkvæmdaáætlun gegn launamisrétti kynjanna
Markmið: Gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir gegn launamisrétti kynjanna með það að markmiði að útrýma því. Framkvæmdaáætlunin feli meðal annars í sér eftirfarandi:

Launamisrétti kynjanna á landsbyggðinni
Markmið: Byggðastofnun, sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið), greinir orsakir launamisréttis kynjanna eftir landsvæðum með það að markmiði að móta tillögu að aðgerðaáætlun til að útrýma launamisrétti kynjanna. Verkefnið er meðal annars afrakstur vinnu við samþættingu kynja og jafnréttissjónarmiða í tengslum við endurskoðun byggðaáætlunar fyrir árin 2010-2013.

Úttekt á launamisrétti kynja í sjávarútvegi og landbúnaði og aðstöðu til náms í greinunum
Markmið: Annars vegar verði gerð úttekt á launum karla og kvenna í landbúnaði og sjávarútvegi og hins vegar stöðu karla og kvenna til náms í þeim greinum sem og námsframboði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Ábyrgð: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið).

Fæðingarorlof
Markmið: Gerð verði könnun á töku foreldra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu þeirra á heimilum sem og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Þá verði könnuð staða mæðra og feðra eftir að fæðingarorlofstímabili lýkur. Sérstaklega verði kannað hvaða áhrif það hafi á töku foreldra á fæðingarorlofi ef greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru skornar niður. Upplýsingar verði greindar eftir kyni, aldri og stöðu foreldra. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Jafnréttisstofu.

Nefnd um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs
Markmið: Nefnd skipuð í samræmi við áherslur Jafnréttisráðs árið 2010 kanni leiðir sem ætlað er að auðvelda virkum þátttakendum á vinnumarkaði að samræma fjölskyldu og atvinnulíf. Nefndin afli upplýsinga um það hvernig virkum þátttakendum á innlendum vinnumarkaði finnist þeim takast að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf og leggi til við velferðarráðherra hvernig unnt sé að auðvelda fólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com