Verkföll bitna ekki bara á samningsaðilum og það hefur landverkafólk sannanlega fengið að reyna í yfirstandandi sjómannaverkfalli. Fiskvinnslufyrirtæki hafa ýmist farið þá leið að bera við hráefnisskorti þannig að fólk fari á kauptryggingu eða borið fyrir sig svokölluðu hamfaraákvæði, en þannig geta fyrirtæki sett fólk beint á atvinnuleysisbætur.
Verkföll bitna ekki bara á samningsaðilum og það hefur landverkafólk sannanlega fengið að reyna í yfirstandandi sjómannaverkfalli. Fiskvinnslufyrirtæki hafa ýmist farið þá leið að bera við hráefnisskorti þannig að fólk fari á kauptryggingu, sem er í raun strípuð dagvinnulaun um 260.000 krónur í mánuði eða borið fyrir sig svokölluðu hamfaraákvæði, en þannig geta fyrirtæki sett fólk beint á atvinnuleysisbætur. Grunnatvinnuleysisbætur eru 217.208 krónur á mánuði en fólk getur fengið tekjutengdar bætur (70% af meðaltekjum síðustu 6 mánaða) í samtals tvo og hálfan mánuð, þó að hámarki 342.422 kr. Auk þess fær fólk uppbót vegna framfærsluskyldu barna yngri en 18 ára: 8.688 kr. á mánuði með hverju barni. Vegna þess hversu lengi verkfallið hefur staðið eru margir því betur settir með atvinnuleysisbætur heldur en strípuð dagvinnulaun. Þess ber þó að geta að hvorki er greitt mótframlag í séreignasjóð af atvinnuleysisbótum né orlof.
Misjafnt er hvort fólk á rétt á atvinnuleysisbótum eða hvort það er hreinlega að klára réttindi sín með sjómannaverkfallinu. Ástæður þess að fólk á ekki rétt á bótum geta verið:
• Starfsfólk er yngra en 18 ára.
• Starfsfólk er í lánshæfu námi meðfram vinnu.
• Starfsfólk hefur áður fullnýtt rétt til atvinnuleysisbóta.
• Starfsfólk hefur ekki byggt upp rétt til atvinnuleysisbóta (t.d. nýkomið til landsins).
• Starfsfólk hefur farið erlendis í verkfallinu (t.d. erlent starfsfólk sem fer heim um jól og áramót).
Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun hafa um 1600 einstaklingar tilgreint sjómannaverkfallið sem ástæðu umsóknar um atvinnuleysisbætur. Af þeim fá tæplega 1300 einstaklingar greiddar bætur. Munurinn á milli skýrist af því að bæði er einstaklingum hafnað vegna þess að þeir eiga ekki rétt til bóta (84 einstaklingar), þeir hafa fullnýtt réttindi sín á þeim tíma sem liðinn er frá því sjómannaverkfallið hófst eða þeir fallið fá umsókn v. tilfallandi vinnu, farið til útlanda ofl..
Þess ber að geta að mörg fyrirtæki hafa brugðist við þrýstingi stéttarfélaganna og haldið fólki sem ekki á rétt á atvinnuleysisbótum áfram í vinnu eða á kauptryggingu.
Alls eru um eitt þúsund starfsmenn á kauptryggingu en atvinnuleysistryggingasjóður greiðir hluta hennar beint til fyrirtækja samkvæmt ákveðnum reiknireglum. Alls eru nú um 2.300 fiskvinnslustarfsmenn ýmist á kauptryggingu eða á atvinnuleysisbótum vegna verkfalls sjómanna. Fiskvinnslufólk á Íslandi er á milli 3-4.000 manns.
Greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði vegna verkfalls sjómanna eru þessar:
Atvinnuleysisb. Kauptrygging Samtals
des.16 26 mkr. 5 mkr. 31 mkr.
jan.17 225 mkr. 56 mkr. 281 mkr.
251 mkr. 61 mkr. 312 mkr.
Verkfallið kemur misjafnt niður á fólki eftir landshlutum. Þannig er um helmingur félagsmanna í Drífandi (verkalýðsfélaginu í Vestmannaeyjum) á atvinnuleysisbótum um þessar mundir og svipaða sögu er að segja um önnur samfélög sem styðjast að stærstum hluta við útgerð og fiskvinnslu. Vaxandi áhyggjur eru af stöðu sveitarfélaga og hafna og fyrirtæki sem þjónusta fiskvinnslur og útgerðir eru farin að finna illa fyrir verkfallinu. Fólk er orðið mjög óþolinmótt að komast aftur í vinnu. Stéttarfélögin hafa aðstoðað fólk eftir megni að skrá sig á atvinnuleysisbætur en útlendingar sérstaklega eiga erfitt með að skilja flókið kerfi. Einhver fyrirtæki bjóða starfsfólki vinnu dag og dag þegar eitthvað er að gera og stéttarfélög hafa lagt áherslu á það við fyrirtæki að dreifa þessari vinnu sanngjarnt á milli starfsfólks og að fólk sé þá kallað inn í heilan dag en ekki hálfan (fólk fær ekki bætur fyrir þá daga sem það er í vinnu hvort sem það er hálfur eða heill dagur). Þá veldur það að sjálfsögðu úlfúð að skrifstofufólk og yfirmenn eru enn í störfum en verkafólkið er sett á bætur.
Staða fyrirtækjanna er mjög misjöfn. Stóru útgerðarfyrirtækin eru líka með landvinnslu og sitja við samningaborðið við sjómenn. Annars staðar er landvinnslan á hendi smærri fyrirtækja sem kaupa fisk til vinnslu á markaði. Það ber að hafa sérstakar áhyggjur af þessum fyrirtækjum og óvíst að öll lifi hráefnisskortinn af. Þá berast fregnir af slæmri stöðu smærri fyrirtækja sem þjónusta vinnslurnar og jafnvel gjaldþrotum. Það hefur þó ekki fengist staðfest.
Starfsgreinasamband Íslands samþykkti ályktun í janúar og mörg aðildarfélög hafa einnig ályktað um stöðu landverkafólks og kjaradeiluna. Öll lýsa yfir stuðningi við sjómenn í verkfalli og leggja ábyrgð á herðar útgerðarfyrirtækja sem oft og tíðum eru þau sömu og standa fyrir landvinnslunni.