Skip to main content
Stéttarfélag.is

Að loknu 15. þingi Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC) – „Mikilvægi sterkrar alþjóðlegrar samstöðu vinnandi fólks aldrei verið meiri“

By June 6, 2023No Comments
Etuc 1
Dagana 23. – 26. maí sl. fór fram í Berlín 15. þing Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC – European Trade Union Confederation). Þingið sem er æðsta vald samtakanna var jafnframt merkilegt fyrir þær sakir að 50 ár eru liðin frá stofnun samtakanna sem í dag eru samsett af aðildarfélögum frá 41 landi sem hafa samtals 45 milljón félagsmenn úr öllum geirum og greinum almenns og opinbers vinnumarkaðar. ETUC hefur í gegnum tíðina verið í fararbroddi í alþjóðlegri stéttabaráttu og sinnt því afskaplega vel þó svo að betur megi ef duga skal eins gjarnan á við um baráttuna.

Ný forysta

Þingið var með hefðbundnu sniði, þ.e. að mestur hluti fór í málefnastarf en auk þess var kjörin ný forysta. Forseti næsti fjögur árin var kjörinn Wolfgang Katzian sem jafnframt er formaður ÖGB í Austurríki. Esther Lynch var kjörin framkvæmdastjóri til næstu fjögurra ára, en hún kemur frá Írlandi og hefur fjölbreytta áratuga reynslu af málefnum vinnandi fólks.

Þingið var ávarpað bæði af Ursulu Von der Leyen forseta Framkvæmdastjórnar ESB og Olof Scholz kanslara Þýskalands sem auk þess að óska félagsfólki með 50 ára afmæli samtakanna fóru yfir þau helstu mál sem hafa og munu vera í brennidepli í evrópskum stjórnmálum á komandi misserum.

Á oddinum næstu fjögur ár

Mest púður fór þó eins og áður segir í málefnastarf en samþykkt var umfangsmikil og metnaðarfull aðgerðaráætlun næstu árin fyrir samtökin til að setja á oddinn og ber þar hæst:

  • Ályktun um að fyrirtæki sem ekki virða réttindi stéttarfélaga og hafna kjarasamningagerð verði útilokuð frá því að veita hinu opinbera þjónustu.
  • Samþykkt um að manneskjur verði alltaf við stjórnvölin (e. human in control principle) í fyrirtækjum þrátt fyrir að fyrirtæki hafi tekið gervigreind í notkun í sinni starfsemi.
  • Barist verði gegn því að stjórnvöld notist við niðurskurð til að bregðast við vaxandi verðbólgu og efnahagslegum samdrætti í Evrópu.
  • Uppfærð og betri jafnlaunatilskipun verði samþykkt hratt og örugglega.
  • Mikilvægi réttlátra umskipta (e. just transition) örugglega og margítrekað.
  • Aukin virkni, metnaður og ákveðni verkalýðshreyfingarinnar sé það sterkasta sem til staðar sé til að berjast gegn uppgangi öfga hægristefnu í Evrópu.

Til viðbótar við framangreint og hefðbundin þingstörf var spjótunum m.a. sérstaklega beint að þeim áskorunum og erfiðleikum sem bíður alþýðufólks í Úkraínu og Tyrklandi þarlend samtök launafólks eiga aðild að ETUC.

Á sérstökum þingvef ETUC má finna umrædda aðgerðaráætlun auk allra annarra upplýsinga af þinginu; https://www.etuc.org/en/congress

„Mikilvægi sterkrar alþjóðlegrar samstöðu vinnandi fólks hefur aldrei verið meiri“

Þingfulltrúar eru alls 600 en ASÍ á rétt á þremur fulltrúum og voru það þau Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir 2. varaforseti, Kristján Þórður Snæbjarnarson 3. varaforseti og Halldór Oddsson sviðsstjóri á skrifstofu ASÍ sem sóttu þingið að þessu sinni.

Eftir þingið sagði Hjördís Þóra;

„Það sem situr eftir er sú mikla alþjóðlega samstaða sem var greinileg á þinginu. Verðbólga sú og stóraukinn framfærslukostnaður sem herjað hefur á launafólk í Evrópu kallar á að öflug alþjóðleg verkalýðshreyfing láti til sín taka ef ekki á byrðin öll að lenda á launafólki á meðan að hagnaður alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem stundum virðist hafin yfir réttlæti og eðlilega skattheimtu, hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Ástand sem um leið skapar jarðveg fyrir uppgang þjóðernishyggju og hægriöfgastefnu. Mikilvægi sterkrar alþjóðlegrar samstöðu vinnandi fólks hefur aldrei verið meiri. Sú aðgerðaráætlun sem samþykkt var á þinginu er metnaðarfull en þó alveg í samræmi við þær umræður sem endurómuðu á meðal félaga okkar á þinginu“

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com