Skip to main content

Í dag eru 95 ár liðin frá því að Alþýðusamband Íslands var stofnað. Sem stærstu heildarsamtök launafólks og samnefnari launafólks á almennum vinnumarkaði, hefur ASÍ haft mikil áhrif á íslenskt samfélag. Efnahagshrunið og afleiðingar þess hafa enn og aftur fært okkur heim sanninn um mikilvægi samtaka launafólks.

(af vef ASÍ)


Alþýðusamband Íslands var stofnað árið 1916 í þeim tilgangi að auðvelda baráttu verkamanna fyrir bættum kjörum. Með samstilltu átaki hefur félagsmönnum ASÍ tekist að hafa mikil áhrif, ekki aðeins á eigin kjör og réttindi, heldur á samfélagið í heild. Samhliða kjarabaráttu líðandi stundar hefur alla tíð verið lögð áhersla á að byggja upp fyrir næstu kynslóðir og horfa til framtíðar.

Fyrstu íslensku verkalýðsfélögin urðu til á tímum mikilla breytinga í atvinnulífi þjóðarinnar. Á skömmum tíma var Ísland að breytast úr bændasamfélagi í nútíma þjóðfélag, fólk streymdi úr sveitunum á mölina og fjölmenn stétt verkamanna varð til. Stórstígar framfarir urðu í sjávarútvegi með tilkomu þilskipa og síðar togara; sjávarútvegurinn var að taka við af kvikfjárræktinni sem helsti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Þörfin fyrir félagsskap verkamanna jókst stöðugt. Um hana ritaði skáldið Einar Benediktsson í blaðið Dagsbrún þann 31. október 1896. „Ef verkamennirnir færu að halda saman, mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju, sem þeir vinna nú á ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar, því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda, sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annars staðar í heimi.“

Fyrstu verkalýðsfélögin urðu til um þetta leyti. Til dæmis var Verkamannafélagið Dagsbrún stofnað árið 1906.

Eftir að verkafólkið fór að standa saman um kröfurnar í skipulögðum fjöldasamtökum var ekki lengur hægt að hunsa vilja þess. Framfarirnar urðu örar og staða almennings styrktist. Menn sáu að bætt kjör voru beint framhald af samstöðu og markvissri baráttu. Um leið skildu menn að því stærri og samstilltari sem hópurinn yrði, því meiri áhrif gæti hann haft.

Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar jókst dýrtíðin og auður færðist á fárra manna hendur, örbirgðin fór vaxandi. Krafan um víðtækt samstarf verkalýðsfélaganna varð æ háværari.
Á Dagsbrúnarfundi þann 28.október 1915 bar Ottó N. Þorláksson upp svohljóðandi tillögu: “Fundurinn óskar eftir, að samband komist á milli Dagsbrúnarfélagsins, Hásetafélagsins, Verkakvennafélagsins, Prentarafélagsins og Bókbindarafélagsins, og kýs 2 menn til að koma þeim í framkvæmd í samráði við væntanlegar nefndir úr ofangreindum félögum.”

Þann 12. mars 1916 var stofnfundur Alþýðusambands Íslands haldinn í Báruhúsinu í Reykjavík.
Fundarmenn voru 20 og komu frá sjö félögum, en Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði og Hásetafélag Hafnarfjarðar höfðu bæst í hópinn. Meðlimir hinna sjö félaga voru um 1500, þar af um fjórðungurinn konur og munaði þar mest um þátttöku verkakvennafélagsins Framsóknar og kvennanna í Hlíf.

Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kosinn forseti sambandsins, varaforseti varð Ólafur Friðriksson og Jón Baldvinsson ritari. Gegndu þeir þessum embættum þar til haldið var fyrsta reglulega þing ASÍ síðar sama ár. Þá tók Jón Baldvinsson við sem forseti og Jónas Jónsson frá Hriflu tók við embætti ritara.

Í fyrstu lögum ASÍ stóð meðal annars þetta:
1.Tilgangur sambandsins er að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna, sem reist er á grundvelli jafnaðarstefnunnar og miði að því að efla og bæta hag alþýðu andlega og líkamlega.
2.Rétt til að ganga í Alþýðusambandið hafa öll íslenzk verkalýðsfélög, er vilja hlíta stefnuskrá sambandsins, en félög þau, er hafa atvinnurekendur innan sinna vébanda, ná ekki inngöngu í sambandið nema á sambandsþingi og að minnsta 2/3 af fulltrúum félaganna séu því hlynntir. En sambandsstjórnin getur a.ö.l. tekið inn í sambandið hvert það félag, sem á skilyrðislausan rétt á inngöngu samkvæmt lögum þessum, en þó skal það síðar borið undir álit sambandsþings.

Stjórnmál í upphafi aldarinnar snerust nær alfarið um sjálfstæðisbaráttuna. ASÍ lagði hins vegar áherslu á að almenning í landinu varðaði um fleira en stjórnmálasambandið við Dani. Það þyrfti fyrst og fremst að taka til hendinni heima fyrir. Verkafólkið var með öllu réttindalaust, vinnutími þess var óralangur, það hafði engar tryggingar og fékk sitt lága kaup oft ekki greitt nema í vöruúttektum.
Stéttabaráttan var pólitísk og til að ná sem mestum árangri þótti nauðsynlegt að sambandið væri um leið stjórnmálaflokkur. Þannig voru ASÍ og Alþýðuflokkurinn árum saman undir einni stjórn og innan Alþýðusambandsins voru jafnt verkalýðsfélög sem pólitísk jafnaðarmannafélög.

Árið 1940 var lögum ASÍ breytt og flokkurinn skilinn frá til að mynda breiða samstöðu vinnandi manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Öll alþýðuflokksfélög gengu úr ASÍ sem varð eingöngu verkalýðssamband. Gengu þá fjölmörg verkalýðsfélög til liðs við sambandið og á næsta sambandsþingi árið 1942 var allt íslenskt verkafólk sameinað í stærstu heildarsamtökum sem mynduð höfðu verið á íslenskum vinnumarkaði.

Pólitískum afskiptum ASÍ var þó ekki lokið. Árið 1955 hóf ASÍ baráttu fyrir því að sameina vinstri öflin og mynda ríkisstjórn sem styddist við verkalýðssamtökin. Miðstjórn ASÍ samþykkti einróma að Alþýðusambandið beitti sér fyrir “…að koma á fót kosningasamtökum allra þeirra vinstri manna, sem saman vilja standa á grundvelli stefnuyfirlýsingar Alþýðusambandsins.” Samþykktinni var fylgt eftir með stofnun alþýðubandalagsins 4. apríl 1956. Tilgangurinn var “…að tryggja verkalýðnum það marga fulltrúa á Alþingi að stjórnarvöldin verði að stjórna í samræmi við hagsmuni alþýðunnar.”

Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að fá samþykkt. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og margt fleira.

Uppbygging velferðarkerfisins hefur verið stórt verkefni sem ASÍ hefur tekið mikinn þátt í. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett 1936 eftir margra ára þref á þingi. Andstæðingar verkamanna héldu því meira að segja fram í fullri alvöru að almennileg samfélagsþjónusta myndi ýta undir veikindi og leti.

Með almannatryggingunum var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir. Til dæmis fólki sem lenti í slysi, veiktist eða missti vinnuna. Með endurskoðun á lögunum um almannatryggingar 1946 var félagslegt öryggi sett í öndvegi og bótarétturinn rýmkaður.

Réttinn til orlofs fékk íslenskt verkafólk 1943, eftir að frumvarp þess efnis hafði legið fyrir Alþingi árum saman. Hið nýstofnaða blað ASÍ, Vinnan, nefndi árangurinn “…réttarbót, sem telja verður stórsigur í hagsmunabaráttu íslenzks verkalýðs.”

ASÍ lagði strax áherslu á að fólk gæti nýtt orlof sitt sem best og liður í því var bygging orlofshúsa víðs vegar um landið. Þau fyrstu risu í Ölfusborgum 1962, en landssvæðið við Hveragerði fékk Alþýðusambandið að gjöf frá forsætisráðherra.

Í kjarasamningi ASÍ og VSÍ 1969 var kveðið á um að stofnaðir skyldu lífeyrissjóðir á félagslegum grundvelli fyrir alla launamenn innan Alþýðusambandsins. Þá hafði verið rætt um almenna lífeyrissjóði á Alþingi frá 1957. Nýr samningur var gerður um sjóðina 1995 þar sem grunnstoðirnar þrjár voru áréttaðar; samtrygging, skylduaðild og sjóðssöfnun.

Konur voru fjórðungur stofnfélaga í ASÍ og þær höfðu sitt að segja. Jafnrétti kynjanna varð eitt af stóru markmiðunum í starfinu. Í upphafi gekk baráttan út á það að sérstakir kvennataxtar yrðu afnumdir. Síðar átti ASÍ stóran þátt í því að knýja í gegn samþykkt Alþingis á alþjóðasamþykktum um launajafnrétti árið 1957 þannig að Ísland varð fyrst Norðurlandanna til að binda jafnrétti í lög.

Lög um verkamannabústaði voru sett 1929 og voru fyrstu íbúðirnar tilbúnar um mitt ár 1932. Verkamenn greiddu 15% af kostnaðarverði og eignuðust síðan íbúðina smátt og smátt á 42 árum með því að greiða húsaleigu sem var lægri en leiga á almennum markaði. Þegar breski herinn fór skildi hann eftir sig fjöldann allan af bröggum og þeir urðu að barnmörgum hverfum þar sem fátækt fólk bjó við slæman kost. Félagsmenn í ASÍ sammæltust um að slá af kaupkröfum sínum og setja þess í stað úrbætur í húsnæðismálum á oddinn. Um miðjan sjöunda áratuginn fékkst samþykkt að byggt yrði upp nýtt hverfi, Breiðholtið og um leið fóru hjallarnir og hreysin að hverfa.

Verkalýðshreyfingin hefur löngum barist fyrir því að fá hinn óheyrilega langa vinnudag verkafólks styttan. Árið 1910 var fyrst gerð tilraun til að lögbinda 10 tíma vinnudag en ekkert þokaðist fyrr en þingmenn ASÍ tóku umræður um hvíldartíma sjómanna upp á Alþingi. 1920 heyrist í fyrsta sinn krafan um 8 stunda vinnudag hérlendis, hjá prenturum. Eftir hörð átök á vinnumarkaði 1942 fékkst 8 stunda vinnudagur inn í samninga, vinnuvikan var því komin niður í 48 stundir. 1972 var 40 stunda vinnuvika loks lögfest. Í kjarasamningum árið 2000 lögðu mörg félög áherslu á að stytta enn frekar vinnuvikuna.

Meðlimir hinna sjö félaga sem stóðu að stofnun ASÍ voru um 1500, þar af um fjórðungurinn konur og munaði þar mest um þátttöku verkakvennafélagsins Framsóknar og kvennanna í Hlíf. Árið 1930 voru félög ASÍ orðin 36; 28 almenn verkalýðsfélög, 2 iðnfélög og 6 jafnaðarmannafélög. Félagar voru að nálgast 6.000. Á hálfrar aldar afmæli sambandsins, 1966, voru meðlimir ASÍ orðnir 35.000 í 150 félögum. 30 árum síðar, eða 1996, voru félagar að nálgast 70 þúsund í 236 félögum. Síðan þá hefur mikið gerst í skipulagsmálum innan ASÍ. Félög hafa verið að sameinast á sama tíma og félagsmönnum hefur fjölgað. Í dag eru þeir yfir 75 þúsund í tæplega 100 félögum og deildum. Hátt í helmingurinn er konur en kynjaskipt félög eru á hröðu undanhaldi. Aðildarfélögin raða sér svo í sex landssambönd.

Þótt þjóðfélagið sé gjörbreytt hafa markmið Alþýðusambandsins ekkert breyst frá fyrsta fundinum í Báruhúsinu. Enn í dag eru þau einfaldlega að efla og bæta hag alþýðunnar. Starf ASÍ er ekki lengur flokkspólitískt en óhætt er að segja að sambandið hafi mikil áhrif innan stjórnkerfisins. ASÍ á fulltrúa sem gæta hagsmuna launafólks í ýmsum starfshópum á vegum stjórnvalda og umsagnar hreyfingarinnar er oftast leitað þegar undirbúin eru lagafrumvörp sem varða hag almennings. Hitt er svo annað mál hversu mikið tillit er tekið til athugasemda launafólks. Það veltur á því hversu dygga talsmenn það á meðal stjórnvalda.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com