Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ sem eru virkir á vinnumarkaði eru 120 þúsund talsins. Það er 60% af íslenska vinnumarkaðnum. Fyrir þessa félagsmenn vinnur úrvals fólk innan hreyfingarinnar, fólk sem er með hjartað á réttum stað, tilbúið til að berjast fyrir vinnandi fólk í stóru sem smáu. Eðlilega greinir fólk á um aðferðir í svo stórri hreyfingu en við eigum það öll sammerkt að hafa hagsmuni launafólks í fyrirrúmi.
Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ sem eru virkir á vinnumarkaði eru 120 þúsund talsins. Það er 60% af íslenska vinnumarkaðnum. Fyrir þessa félagsmenn vinnur úrvals fólk innan hreyfingarinnar, fólk sem er með hjartað á réttum stað, tilbúið til að berjast fyrir vinnandi fólk í stóru sem smáu. Eðlilega greinir fólk á um aðferðir í svo stórri hreyfingu en við eigum það öll sammerkt að hafa hagsmuni launafólks í fyrirrúmi.
Það er ekkert nýtt að takturinn sé misjafn, róttæknin í mismunandi skömmtum og aðferðirnar ólíkar innan hreyfingarinnar. Nú hafa félögin VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara og tekur hún við verkstjórn viðræðnanna. Þegar samninganefndir ólíkra félaga eru með misjafnt mat á stöðunni er hreinlegast að leiðir skilji en það er alveg ljóst að kröfugerðirnar eru ekki breyttar og öll félögin hafa samþykkt þær og vinna út frá þeim. Styrkur okkar liggur í samstöðunni um kröfugerðirnar og um alvöru aðgerðir í þágu launafólks. Ágreiningur um aðferðir veikir okkur ekki. Við vinnum áfram sem ein heild að þeim málum sem ASÍ hefur haft forgöngu um, þ.e. stefnu í skattamálum, húsnæðismálum og stefnu um aðgerðir gegn félagslegu undirboði (réttara nafni glæpastarfsemi á vinnumarkaði), svo stóru málin séu nefnd.
Risavaxið verkefni bíður okkar á næsta ári. Verkefni sem allir eru einbeittir í að vinna að; betri kjörum fyrir vinnandi fólk og sanngjarnari skiptingu verðmæta. Það krefst þess að leyst verði úr húsnæðisvandanum og að breytingar á skattkerfinu verði þannig að allir leggi sinn skerf í sameiginlega sjóði. Það er löngu tímabært að láglaunafólk þurfi ekki að bera þyngstu byrðarnar á meðan þeir bestu settu eru stikkfrí. Kjarasamningarnir þurfa svo að endurspegla þá sjálfsögðu kröfu að fólk geti unnið fyrir sér án þess að ganga sér til húðar.
Ég vil nota þetta tækifæri og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þakka fyrir samstarf og stuðning á árinu. Ég hlakka mikið til að vinna áfram með öllum þeim stórkostlegu einstaklingum sem mynda okkar öflugu hreyfingu. Megi nýtt ár færa okkur betri kjör og sanngjarnara samfélag!
Drífa Snædal