Skip to main content

,,Við getum ekki sætt okkur við að sitja enn eina ferðina eftir í launum eða kjörum, miðað við aðra hópa samfélagsins” segir Þórarinn formaður og hvetur félagsmenn Öldunnar stéttarfélags til að standa saman og taka þátt í atkvæðagreiðslunni um verkfallsaðgerðir.

Kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands er sanngörn, megin krafan er að lægstu launin verði komin upp í 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Á samningafundi í síðustu viku fengu aðildarfélög Starfsgreinasambandsins skýr skilaboð frá vinnuveitendum um að ekki væri vilji til að ræða frekar okkar sjálfsögðu kröfur. Þeir segja að efnahagslíf þjóðarinnar fara rakleitt á hausinn, hækki lægstu launin umfram 3-4%.  Samninganefnd Starfsgreinasambandsins ákvað því að slíta viðræðum við vinnuveitendur, enda ekkert um að tala lengur.

Blákaldar staðreyndir
Auðvitað olli þessi einarða afstaða vinnuveitenda vonbrigðum, enda er viðurkennt að fólk getur ekki lifað af dagvinnulaunum til að framfleyta sér og sínum. Verkalýðshreyfingin kannast hins vegar ágætlega við gamalkunnan söng vinnuveitenda, þannig að þessi afstaða var á margan hátt fyrirsjáanleg. Í velferðarríki hlýtur fólk að vera sammála um mikilvægi þess að almennt launafólk geti lifað af hefðbundnum dagvinnulaunum.
Í nýrri skýrslu kemur fram að dagvinnulaun  stjórnenda á Íslandi eru 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Dagvinnulaun sérfræðinga eru 3-5% lægri hér á landi en í hinum löndunum. Munurinn er hins vegar sláandi þegar verkafólk og þjónustu,- sölu,- og afgreiðslufólk er skoðað.  Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þetta eru blákaldar staðreyndir, sem okkur ber að leiðrétta.

Verkfallsaðgerðir
Í ljósi stöðunnar sem upp er komin er Starfsgreinasambandið nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar. Mikilvægt er að þátttakan í atkvæðagreiðslunni verði góð, enda er samstaðan beittasta vopn verkalýðshreyfingarinnar. Verkfall er neyðarréttur, það skal undirstrikað hér. Komi til verkfallsaðgerða, er ábyrgðin vinnuveitenda, sem virðast neita með öllu að viðurkenna að lægstu launin eru ekki sæmandi þjóð sem kennir sig við velferð. Kröfugerðin er vel ígrunduð og mótuð af hinum almenna félagsmanni. Nýr kafli í baráttunni er að hefjast, gleymum því ekki. Þess vegna þurfa  atvinnurekendur að verða  varir við áþreyfanlega samstöðu launafólks. Við vitum líka að þorri þjóðarinnar stendur með verkalýðshreyfingunni.  Á því leikur enginn vafi.

Samstaðan er beittasta vopnið
Þegar samningaviðræður hefjast á nýjan leik – hvenær sem það nú verður – þarf baklandið að vera traust. Hlutverk samninganefndarinnar er að ná fram ásættanlegum samningum og þá er líka eins gott að nefndin hafi fullan stuðning allra. Við getum ekki sætt okkur við að sitja enn eina ferðina eftir í launum eða kjörum, miðað við aðra hópa samfélagsins.

Þó  sólin hækki á lofti dag frá degi, er ekki sömu sögu að segja um kjaramálin. Samstaðan er beittasta vopnið í kjarabaráttunni, næstu vikurnar mun reyna á alla hlekki keðjunnar.

Látum hræðsluáróður vinnuveitenda ekki villa okkur sýn.

Ég hvet félagsmenn Öldunnar stéttarfélags til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni um verkfallsaðgerðir.

 

Þórarinn G. Sverrisson,
formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com