Ágæti félagsmaður. Skiptir kosning um verkfallsheimild einhverju máli fyrir þig?
Já svo sannarlega. Nú ríður á að þú standir með sjálfum þér. Þinna krafta er þörf til að lagfæra þau kjör sem þér verða boðin í framtíðinni. Nýttu því atkvæðarétt þinn og segðu: JÁ – ég tek þátt í verkfalli.
Kæri félagi.
Skiptir kosning um verkfallsheimild einhverju máli fyrir þig?
Já svo sannarlega. Nú ríður á að þú standir með sjálfum þér. Þinna krafta er þörf til að lagfæra þau kjör sem þér verða boðin í framtíðinni.
Nýttu því atkvæðarétt þinn og segðu: JÁ – ég tek þátt í verkfalli.
JÁ – því framtíðin er í húfi.
Samningaviðræður Starfsgreinasambandsins, og þar með Öldunnar stéttarfélags, við Samtök atvinnulífsins um endurnýjaða kjarasamninga hafa siglt í strand. Forystumenn Samtaka atvinnulífsins hafa hafnað því að gera við okkur samkomulag um verulegar kjarabætur. Þeir bjóða einungis 3%-4% hækkun, sem er að okkar mati langt frá því sem getur talist ásættanlegt fyrir almennt verkafólk.
Viðsemjendur okkar treysta því að enn sé hægt að traðka á okkur og telja öruggt að enginn þori í verkföll. En ég er þess fullviss að þú ert ekki sammála þessum mönnum og að þú viljir ekki láta bjóða þér annað eins og það sem við höfum orðið vitni að í þessum efnum.
Því vil ég hvetja þig kæri félagi til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og samþykkja verkfallsboðun. Þá aðeins munu þeir hlusta og hugsa sig um í komandi samningum áður en þeir henda okkar kröfum út af borðinu. Mundu það félagi góður að það koma alltaf nýir samningar og þessi spor sem við stígum nú munu einnig marka þá samningsstöðu sem við höfum í framtíðinni.
Það er ekki nóg að horfa óánægður á launaseðilinn en segja ekki neitt. Nú þarf að standa saman og láta sjá að okkur er alvara. Notaðu atkvæðisréttinn því þannig mælum við styrk hreyfingarinnar.
Segðu JÁ við verkfalli því við ætlum að berjast saman !
Þórarinn G. Sverrisson,
formaður Öldunnar stéttarfélags