Skip to main content
AldanVMF

193 þúsund kr. munur á ári á hæstu og lægstu gjöldum fyrir þjónustu fyrir grunnskólabörn

By January 29, 2021No Comments

Gjöld fyrir dagvistun og síðdegishressingu hækka mest milli ára hjá Reykjanesbæ, 4,4% og næst mest hjá Seltjarnarnesbæ, 4,1% í nýrri könnun sem verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman um þjónustu fyrir grunnskólabörn

Gjöld fyrir dagvistun og síðdegishressingu hækka mest milli ára hjá Reykjanesbæ, 4,4% og næst mest hjá Seltjarnarnesbæ, 4,1% í nýrri könnun sem verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman um þjónustu fyrir grunnskólabörn. Sömu gjöld standa í stað í Vestmannaeyjum en hækka á bilinu 2-3% hjá öðrum sveitarfélögum.

Verð á skólamat hækkar mest hjá Akraneskaupsstað eða um 20,1% en lækkar mest hjá Fjarðarbyggð um 50%. Verð á skólamat stendur í stað hjá Reykjavíkurborg og Vestmannaeyjabæ. Verðhækkanir á skólamat í öðrum sveitarfélögum eru á bilinu 1,9-7%.

Seltjarnarnes er með hæstu gjöldin fyrir skóladagvistun og hressingu, 32.704 kr. en Vestmannaeyjar þau lægstu, 15.938 kr. Hæstu gjöld fyrir skólamat eru hjá Ísafjarðarbæ, 11.430 kr. en þau lægstu í Fjarðarbyggð, 3.150 kr.

Mestar hækkanir hjá Akranesbæ, Seltjarnarnesbæ, Reykjanesbæ og Borgarbyggð
Ef öll grunnskólagjöld eru skoðuð, þ.e. gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat, má sjá að þau hækka mest á Akranesi um 6,5% og næst mest hjá Reykjanesbæ, 5,1%. Gjöldin lækka mest hjá Fjaðrarbyggð um 10,7% en standa í stað í Vestmannaeyjum.

Mest hlutfallsleg hækkun á gjöldum fyrir skóladagvistun með síðdegishressingu er hjá Reykjanesbæ þar sem gjöldin hækka um 4,4% milli ára. Næst mest hækka þau á Seltjarnarnesi um 4,1%. Í krónum talið hækka gjöldin þó mest hjá Seltjarnarnesbæ eða um 12.888 kr. á mánuði. Sömu gjöld standa í stað hjá Vestmannaeyjabæ.

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ 

Skólamatur hækkar mest á Akranesi, 20,1% eða um 1.596 kr. á mánuði, næst mest á Akureyri um 7% en þriðja mesta hækkunin er í Reykjanesbæ, 6,6%. Mest lækkar skólamatur hjá Fjarðarbyggð um 50% eða 3.150 kr. Verð á skólamat stendur í stað hjá Reykjavíkurborg og Vestmannaeyjabæ milli ára.

Gjöld fyrir skóladagvistun og síðdegishressingu hæst hjá Seltjarnarnesbæ en lægst hjá Vestmannaeyjabæ
Gjöld fyrir skóladagvistun og síðdegishressingu eru hæst á Seltjarnarnesi, 32.704 kr. og næst hæst í Garðabæ, 29.610 kr. Lægst eru gjöldin í Vestmannaeyjum, 15.938 kr. og næst lægst hjá Reykjanesbæ, 18.165 kr. Munur á hæstu gjöldum á Seltjarnarnesi og þeim lægstu í Vestmannaeyjum er 105% eða 16.766 kr. á mánuði. Sé miðað við skóladagvistun í 9 mánuði gerir það 150.984 kr. á ári.

 

Fjarðarbyggð með lang ódýrasta skólamatinn
Gjöld fyrir skólamat eru hæst hjá Ísafjarðarbæ, 11.340 kr. og næst hæst hjá Seltjarnarnesbæ, 11.172 kr. Fjarðarbyggð er með lang lægstu gjöldin fyrir skólamat, 3.150 kr. en eins og fyrr sagði lækkuðu gjöldin um 50% milli ára. Sveitarfélagið Árborg er með næst lægstu gjöldin, 8.211 kr. og er því 5.061 kr. munur á lægstu og næst lægstu gjöldum fyrir skólamat.

Munur á hæstu gjöldum fyrir skólamat hjá Ísafjarðarbæ og þeim lægstu hjá Fjarðarbyggð er 260% eða 8.190 kr. á mánuði sem gerir 73.710 kr. á ári sé miðað við 9 mánuði.

 

Samanlögð gjöld fyrir vistun, hressingu og skólamat lægst í Fjarðarbyggð en hæst á Seltjarnarnesi
Ef öll gjöld fyrir grunnskólabörn, gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressing og skólamat, eru tekin saman er Seltjarnarnes með hæstu gjöldin, 43.876 kr. en Fjarðarbyggð þau lægstu, 22.470 kr. Munur á hæstu og lægstu gjöldum er því 95% eða 21.406 kr. á mánuði sem gerir 192.654 kr. á ári sé miðað við 9 mánuði.

Lægstu gjöld fyrir fjölskyldur með fleiri en 1 barn hjá Reykjavíkurborg en þau hæstu hjá Reykjanesbæ og Seltjarnarnesbæ
Systkinaafslættir eru mismiklir hjá sveitarfélögunum og er mikill munur á gjöldum fyrir skóladagvistun og hressingu á milli sveitarfélaga en afslátturinn er reiknaður af dagvistunargjaldi en ekki fæði.

Lægstu gjöld fyrir skóladagvistun og hressingu fyrir fjölskyldur með 2 börn eru hjá Reykjavíkurborg, 22.860 en þau hæstu hjá Seltjarnarnesbæ, 51.419 kr. Munur á hæstu og lægstu gjöldum er því 124% eða 28.559 kr. á mánuði sem gerir 257.026 kr. verðmun á ári miðað við 9 mánuði. Lægstu gjöld fyrir fjölskyldur með 3 börn eru einnig í Reykjavík og þau hæstu á Seltjarnarnesi.

 

Forgangshópar
Einungis fjögur sveitarfélög bjóða upp á sérstök gjöld fyrir forgangshópa, Kópavogur Garðabær, Akranes og Seltjarnarnes. Afslættirnir eru mismiklir og misjafnt er hverjir geta fengið slíkan afslátt hjá sveitarfélögunum. Í töflunni má sjá upphæð afsláttanna og hverjir geta fengið þá.

Tafla með öllum gjöldum og breytingum 

Um samantektina
Samanburðurinn var gerður á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat í 15 stærstu sveitarfélögum landsins. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélaga miðar verðlagseftirlit ASÍ við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Ávaxtastund og mjólkuráskrift sem oft eru í boði eru ekki með í verðsamanburðinum. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin.

Einungis er um verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com