Verðlag lækkaði um 0,72% í janúarmánuði sem er meiri lækkun en gert var ráð fyrir og mælist ársverðbólga nú 3,1%. Í þessum tölum birtast þau jákvæðu skilaboð sem fjölmörg fyrirtæki og sveitarfélög hafa sent út í tengslum við átakið VERTU Á VERÐI! með því að sýna aðhald og ábyrgð í verðlagsmálum.
Verðlag lækkaði um 0,72% í janúarmánuði sem er meiri lækkun en gert var ráð fyrir og mælist ársverðbólga nú 3,1%. Í þessum tölum birtast þau jákvæðu skilaboð sem fjölmörg fyrirtæki og sveitarfélög hafa sent út í tengslum við átakið VERTU Á VERÐI! með því að sýna aðhald og ábyrgð í verðlagsmálum.
Ljóst er að hækkanir á opinberri þjónustu og álögum vinna hins vegar á móti þessu átaki og eru, líkt og verkalýðshreyfingin hefur ítrekað bent á, í algjörri andstöðu við þann samtakamátt um stöðugleika í verðlagsmálum sem lagt var upp með við gerð kjarasamninga í desember.
Sjá töflu yfir verðbólgubreytingar síðustu 12 mánuða á heimasíðu ASÍ
Lækkunin á vísitölu neysluverðs í janúar er að mestu tilkomin vegna útsöluáhrifa á fötum og skóm, húsgögnum og húsbúnaði en lækkun á flugfargjöldum og eldsneyti hefur einnig áhrif til lækkunar á verðlagi í mánuðinum.
Á móti þessu vegur að ýmsar opinbera álögur hækka sem hafa samtals 0,27% áhrif til hækkunar á verðlagi. Þar á meðal eru:
· Áfengi og tóbak hækka um 1,7% vegna hækkunar á áfengis- og tóbaksgjöldum í upphafi árs – Vísitöluáhrif 0,06%.
· Vörugjöld á bensín og olíur hækkuðu um áramót sem skilar sér í því að bensínverð er um 1 prósentustigi hærra en ella sem hefur um 0,06% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.
· Heilbrigðsþjónusta hækkar um 4,7% vegna hækkana á gjaldskrám sjúkratrygginga og aukinni kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þar á meðal er hækkun um tæplega 20% hjá heimilislæknum, 19% hjá sérfræðingum og 9% í annarri heilbrigðisþjónustu. Tannlæknaþjónusta lækkar hins vegar um 1,4% vegna aukinnar kostnaðarþátttöku ríkisins hjá börnum. Vísitöluáhrif samtals um 0,08%.
· Póstþjónusta sem er að mestu í eigu ríkisins hækkar um 6,1% og hefur 0,01% áhrif til hækkunar á verðlagi.
· Álögur á fasteignaeigendur hækka: Sorphirða, holræsagjöld og vatn hækka samtals um 3,4% og hafa 0,07% áhrif til hækkunar á vísitölunni.
· Rafmagn hækkar um 1,6% og hefur 0,03% vísitöluáhrif.
· Lækkun á virðisaukaskatti á pappírsbleyjum úr 25,5% í 7% sem skilar sér hins vegar í tæplega 15% lækkun á bleyjum og hefur 0,02% áhrif til lækkunar á verðlagi og sömuleiðis lækkun á stimpilgjöldum vegna húsnæðiskaupa um 10% sem hefur einnig 0,02% áhrif til lækkunar á verðlagi.
Í þessu ljósi er afar mikilvægt að stjórnvöld taki af skarið og afturkalli verulegan hluta þessara hækkanna og leggi þannig með áþreifanlegum hætti sitt af mörkum til að ná verðbólgunni niður á þolanlegt stig.