Skip to main content
AldanVMF

Endurskoðuð hagspá ASÍ 2017-2019

By April 12, 2017No Comments

ASÍ spáir áframhaldandi kröftugum hagvexti á þessu ári og að uppsveiflan sé í hámarki. Ákveðin hættumerki eru til staðar og óvissa hefur aukist frá síðustu spá hagdeildar m.a. vegna þeirra aðstæðna sem hafa myndast á húsnæðismarkaði og mögulegra áhrifa úrskurðar kjararáðs.

ASÍ spáir áframhaldandi kröftugum hagvexti á þessu ári og að uppsveiflan sé í hámarki. Ákveðin hættumerki eru til staðar og óvissa hefur aukist frá síðustu spá hagdeildar m.a. vegna þeirra aðstæðna sem hafa myndast á húsnæðismarkaði og mögulegra áhrifa úrskurðar kjararáðs. Ennfremur eru efnahags- og verðlagshorfur háðar þróun ferðaþjónustunnar í meira mæli en áður. Spáin gerir ráð fyrir auknum fjölda ferðamanna þó hægja muni á vextinum en sú forsenda ræður miklu um þróunina framundan.

Hagspá ASÍ 2017-2019 – myndræn framsetning

Helstu atriði
Við spáum kröftugum vexti þjóðarútgjalda á þessu ári þar sem einkaneysla eykst um 7,2% og fjármunamyndun um 13,5%. Vöxtur einkaneyslunnar skýrist af auknum kaupmætti og traustari fjárhagsstöðu heimilanna sem hafa nýtt svigrúmið til að greiða niður skuldir, endurnýja varanlegar neysluvörur og bíla og ferðast erlendis. Það hægir á fjárfestingu atvinnuveganna en aukin íbúðafjárfesting og opinber fjárfesting styðja við fjárfestingastigið á spátímanum.

Við væntum styrkingar krónunnar yfir spátímabilið og að verðbólga verði 1,9% á þessu ári. Hægari styrking krónunnar síðari hluta spátímans eykur verðbólguþrýsting og að óbreyttu verður verðbólga um 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2019. Styrking krónunnar þrengir að útflutningsgreinum og við teljum brýnt að áhrif styrkingar krónunnar á samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina verði metin.

Viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja á húsnæðismarkaði en viðvarandi skortur á húsnæði hefur leitt til þess að sölutími eigna hefur sjaldan verið skemmri og æ fleiri dæmi heyrast um að kaupendur bjóði upp verð fasteigna sökum skorts eða væntinga um framtíðarhækkun fasteignaverðs. Aðstæður sem þessar geta hæglega leitt til þess að verð vaxi umfram það sem hefðbundnir ákvörðunarþættir gefa tilefni til og því full ástæða til viðbragða að hálfu stjórnvalda.

ASÍ telur mikilvægt að bregðast við á leigumarkaði þar sem of stór hluti fólks býr við ótryggt húsnæði og íþyngjandi húsnæðiskostnað. Tryggja þarf ungu fólki og tekjulágu öruggt leiguhúsnæði og gera leiguhúsnæði að raunverulegum valkosti í búsetu. Til þess er brýnt að hraða uppbyggingu leiguíbúða í nýja Almenna íbúðakerfinu enn frekar og fjölga íbúðum um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin í stað þeirra 600 sem nú eru áformuð á ári fram til ársins 2019.

Aðstæður á vinnumarkaði eru ekki ólíkar þeim sem uppi voru á toppi síðustu hagsveiflu, þó samsetning starfa og atvinnugreina hafi breyst með tilkomu ferðaþjónustunnar. Þeirri sviðsmynd sem birtist í spá ASÍ fylgir aukin eftirspurn eftir starfsfólki og ljóst er að mannvirkjagerð og ferðaþjónusta munu áfram þurfa að reiða sig á erlenda starfsmenn til að geta vaxið. Við höfum þó áhyggjur af stöðu erlendra starfsmanna en vísbendingar eru um að töluverður fjöldi óskráðra starfsmanna starfi hér á landi.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com